Landsnet hagnaðist um 236 milljónir króna á fyrri hluta árs. Til samanburðar tapaði félagið 133 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

Landsnet annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfa. Það eru í eigu opinberra orkufyrirtækja, svo sem Landsvirkjunar, Rarik, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða.

Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) hafi þrátt fyrir þetta lækkað um 180 milljónir króna á milli ára. Hann nam í ár 4.178 milljónum króna samanborið við 4.358 milljónir í fyrra. Betri afkoma á fyrri helmingi ársins 2012 í samanburði við fyrri helming fyrra árs stafar að mestu af breytingum í fjármagnsliðum og felst í hagstæðari breytingum á gengi á fyrstu 6 mánuðum ársins en í fyrra, að því er segir í uppgjörinu.

Þá kemur fram að hrein fjármagnsgjöld námu samtals 2.647 milljónum króna í ár. Þau voru 3.165 milljónir króna í fyrra. Hrein fjármagnsgjöld lækka því um 518 milljónir króna á milli ára.

Eiginfjárhlutfall Landsnets í lok júní var 17,6% samanborið við 16,7% um síðustu áramót. Eigið fé í lok tímabilsins nam 12.697 milljónum króna samanborið við 12.462 milljónir í lok síðasta árs. Þá námu heildarskuldir 59.397 milljónum króna samanborið við 62.217 milljónir um áramótin.