„Þetta kom þannig til að ég sá auglýsingu um skólastyrk japanskra stjórnvalda til náms í Japan,“ segir Halldór Þorsteinsson laganemi sem er nýfluttur til Fukuoka í Japan þar sem hann mun læra japönsku í Kyushu háskóla næstu sex mánuði. Prógrammið er svokallað intensive prógram þar sem farið er yfir námsefnið á tvöföldum hraða: „Ég er því í prófum nánast daglega og þarf að halda reglulega fyrirlestra á japönsku. Í október tekur svo við framhaldsnám í alþjóðlegri efnahags- og viðskiptalögfræði við lagadeild sama háskóla.“

Þegar Halldór ákvað að sækja um styrkinn eyddi hann dágóðum tíma í að útbúa umsókn og lagði hana fram í japanska sendiráðinu í Reykjavík korteri áður en fresturinn rann út. En þegar í sendiráðið var komið misskildi Halldór örlítið skilmálana fyrir styrknum: „Í sendiráðinu var mér tjáð að japönskuprófið, enskuprófið og viðtalið væri viku síðar. Ég skildi það sem svo að ég þyrfti að kunna japönsku til að hljóta styrkinn. En það var alls ekki svo,“ segir Halldór sem dó þó ekki ráðalaus: „Ég straujaði því beint i næstu bókabúð og bað afgreiðslumanninn um að selja mér eitthvað sem gæti kennt mér japönsku á einni viku.“ Og Halldór gekk út með japanska vasaorðabók fullur bjartsýni.

„Viku síðar tek ég svo japönskuprófið og enskuprófið og síðan fór fram viðtal. Japanski sendiherrann, starfsmaður sendiráðsins og fulltrúi frá menntamálaráðuneytinu tóku á móti mér. Viðtalið var í stórum sal sem minnti á senu í bíómynd þar sem fangi fer fram á reynslulausn og situr einn á stól mörgum metrum frá nefndinni. Viðmótið sem ég mætti var þó töluvert viðkunnanlegra en því sem fangar mæta í slíkum bíómyndum.“ Halldór fékk tilkynningu nokkru síðar að hann hefði hlotið styrkinn: „Það hafði greinilega skilað einhverju að segja frá því að sem barn klæddist ég iðulega kímono um helgar.“

Nánar er rætt við Halldór Þorsteinsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.