Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, hefur snúið sér á nýjan leik að líftæknifyrirtækjum sem vinna að erfðafræðirannsóknum og kortalagningu genamengis mannsins. Hann segir mikinn vöxt í líftækni og muni framþróun í greininni hafa áhrif á heilbrigðisgeirann.

Hannes kynnir sig sem frumkvöðul, sem hafi áhuga á íþróttum, hlaupum og fjallgöngum, viðskiptafrömuð og fjárfesti á heimasíðu undir eigin nafni, www.hannessmarason.com .

Þar segist hann jafnframt hafa verið ráðgjafi Íslenskrar erfðagreiningar um langt skeið og unnið sömuleiðis með fjárfestum félagsins, Polaris Venture Partners og ARCH Venture Partners, og lagt lóð sitt á vogarskálarnar þegar bandaríska lyfjafyrirtækið Amgen keypti Íslenska erfðagreiningu fyrir jafnvirði 50 milljarða króna í desember í fyrra.

Kom að gerð milljarðasamninga

Á vefsíðunni segir um Hannes að hann hafi verið forstjóri vaxtarfyrirtækja á borð við Icelandair  og FL Group og aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þ.e. deCode. Þá hafi hann í eigin fjárfestingum komið að nokkrum vel heppnuðum verkefnum á borð við smíði stærstu verslanamiðstöðvar á Íslandi og vexti stærsta drykkjavöruframleiðanda Evrópu. Þar nefnir hann engin nöfn. Gera má ráð fyrir að þar vísi Hannes til Smáralindar og drykkjavöruframleiðandann Refresco. Þá segist Hannes að frá haustinu 2008 hafi hann komið að samningum upp á hálfan milljarð dala, jafnvirði 60 milljarða króna, í lyfjageiranum og öðrum greinum.

Hannes var aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í kringum síðustu aldamót. Hann settist í stjórn Flugleiða árið 2004 en tók við sem forstjóri FL Group síðla árs 2005. Eftir umfangsmiklar fjárfestingar FL Group hætti hann skyndilega sem forstjóri rétt fyrir jólin 2007. FL Group hafði þá farið illa út úr kaupum á stórum hlutum í AMR, móðurfélagi bandaríska flugfélagsins American Airlines, Commerzbank og fleiri fjárfestingum. Tap félagsins árið sem Hannes stóð upp úr forstjórastólnum nam 67 milljörðum króna. FL Group heitir í dag Stoðir og gáfu kröfuhafar eftir um 95% af kröfum sínum á félagið.

Á heimasíðu Hannesar má m.a. sjá tvö myndskeið þar sem Hannes ræðir um möguleikana sem hann sér í líftæknigeiranum.