Bændasamtökin hafa legið undir mikilli gagnrýni á síðustu árum. Þannig hefur starfsmannafjöldi samtakanna verið gagnrýndur svo dæmi sé tekið en þess utan virðast samtökin hafa skapað sér miklar óvinsældir hjá ákveðnum hópum.

Aðspurður um þetta segir Haraldur Benediksson, formaður Bændasamtakanna, að hjá samtökunum  starfi nú 46 starfsmenn þegar allt er talið til, en langstærsti hluti þeirra sinni viðamiklu hlutverki í tengslum við ráðgjafarþjónustu og ræktunarstarf. Af fyrrnefndum starfsmannafjölda starfa um 5 manns með beinum hætti fyrir það sem kallað er stéttarfélag bænda.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er ítarlega rætt við Harald í viðtali. Eftirfarandi kafli  rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér í heild sinni.

„Meginstarf bændastamtakanna er að reka ráðgjafaþjónustu fyrir bændur, svokallaða ráðunauta. Við höldum utan um búfjárræktina, skrá afurðir sauðfjár, hrossa og kúa. Við berum ábyrgð á ræktunarstarfinu sem slíku, reka nautastöð og fl.,“ segir Haraldur.

„Okkur eru falin þessi verkefni samkvæmt búnaðarlögum af því að ríkið ætlar að ná fram tilteknum markmiðum í landbúnaði. Þetta útskýrir að mestu fjölda starfsmanna hjá samtökunum. Við sinnum líka fleiri verkefnum sem ríkið hefur falið okkur að vinna. Það er ekki endilega markmið Bændasamtakanna að halda þessum verkefnum en það hefur hins vegar verið ódýrara og hagkvæmara fyrir ríkið að útvista þessum verkefnum í stað þess að sjá um alla þá vinnu sem þessu fylgir. Ríkið getur hætt því hvenær sem er.“

Þá segir Haraldur að samtökin muni þó breytast mikið um næstu áramót þegar fyrrnefndur ráðgjafahluti verður klofinn frá samtökunum og stofnað verður sér ráðgjafafyrirtæki um þann þátt. Það sé liður í einföldun og hagræðingu auk þess sem það auki sérhæfni þess fyrirtækis. Þá bendir Haraldur á að samtökin gefi út blað, Bændablaðið, en sá rekstur standi alfarið undir sér.

„Það er því alrangt sem oft er haldið fram að við séum að nota opinbera peninga til að gefa út áróðursrit. Í raun er verið að saka okkur um þjófnað með því að halda því fram,“ segir Haraldur.

„Ef menn halda að við séum að nota opinbera fjármuni til að stunda hagsmunabaráttu þá ættu menn frekar að kæra okkur til lögreglu í stað þess að halda þessu ítrekað fram sem einhverjum véfréttum.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fjallar Haraldur um aðildarviðræðurnar að ESB og störf íslenskra embættismanna, stöðu bænda almennt auk þess sem hann svarar spurningum um umdeilda tolla og ríkisstyrki, framtíð landbúnaðarins og þess utan hótelrekstur samtakanna sem hefur verið til umfjöllunar að undanförnu.