Íslensk stjórnvöld harma þá ákvörðun rússneskra yfirvalda að bæta Íslandi á lista yfir lönd sem sæta innflutningsbanni til Rússlands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins liggur fyrir að íslenskar vörur verði ekki tollafgreiddar og hætta sé á að vörum verði fargað á landamærunum.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við höfum leitað allra leita til að útskýra afstöðu okkar fyrir rússneskum stjórnvöldum og þá hagsmuni sem undir eru,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í tilkynningunni.

Fundaði með rússneska sendiherranum

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton V. Vasiliev ræddust við á óformlegum fundi í dag. Þetta kemur fram í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins. Þar segir að á fundinum var farið yfir stöðuna sem uppi er í samskiptum ríkjanna, vegna ákvörðunar Rússa um að setja innflutningsbann á íslenska matvöru . Ráðherra benti á það að bann Rússa væri mun þyngra högg fyrir íslenskt efnahagslíf, en annarra þjóða. Helgast það einkum af því að mikið af sjávarafurðum hefur verið flutt út til Rússlands á undanförnum árum.

Sendiherrann sagði að ákvörðunin frá því í morgun, beindist ekki sérstaklega gegn Íslandi, heldur væru Rússar að svara í sömu mynt fyrir þær aðgerðir sem beitt hefði verið gegn þeim. Aðgerðir sem Rússar telji ólöglegar. Sendiherrann sagðist ekki hafa upplýsingar um hversu víðtækt innflutningsbannið væri, en það væri tímabundið og nauðsynlegt að vinna að sameiginlegri lausn.