Nokkuð rólegt var yfir innlendum verðbréfamörkuðum í dag, fyrsta viðskiptadaginn eftir alþingiskosningarnar síðastliðinn laugardag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,58% og heildarvísitalan á hlutabréfamarkaði lækkaði um 0,1% í 2,3 milljarða króna viðskiptum. Þá urðu litlar breytingar á skuldabréfamarkaði þar sem heildarveltan nam 1,5 milljörðum króna.

Á hlutabréfamarkaði hækkaði gengi bréfa í HB Granda mest, eða um 4,33% í 535,8 milljón króna viðskiptum. Þá hækkaði N1 um 1,79% og Reginn um 1,27%. Á hinn bóginn lækkaði gengi bréfa í Marel (1,59%), Nýherja (1,25%) og Icelandair Group (0,90%).

Á skuldabréfamarkaði varð mest breyting á óverðtryggða ríkisbréfaflokknum RIKB22, en ávöxtunarkrafan hækkaði um 0,11%. Engin viðskipti áttu sér stað á First North. Heildarvelta á verðbréfamörkuðum nam tæplega 3,8 milljörðum króna.