HB Grandi hagnaðist um 36,3 milljónir evra á síðasta ári, en fjárhæðin samsvarar tæpum 5,5 milljörðum íslenskra króna. Hagnaðurinn eykst lítillega milli ára en hann nam 35,4 milljónum evra ári fyrr. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Rekstrartekjur ársins námu 214,9 milljónum evra, en voru 195 milljónir evra ári fyrr. EBITDA ársins var 49,9 milljónir evra eða 23,2%, en nam 45,1 milljón (23,1%) árið 2013.

Heildareignir félagsins námu 366,7 milljónum evra í árslok 2014. Þar af voru fastafjármunir 284,3 milljónir og veltufjármunir 82,4 milljónir. Eigið fé nam 218,8 milljónum evra og var eiginfjárhlutfall 60%, en var 61% í lok árs 2013. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 147,9 milljónir evra.

2,7 milljarðar í arð til hluthafa

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2015 verði vegna rekstrarársins 2014 greidd 1,50 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 2.720 milljónir króna sem samsvarar 8,1% af eigin fé eða 4,4% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2014. Fjárhæðin samsvarar um 17,7 milljónum evra á lokagengi ársins 2014.

HB Grandi hf. gerði út 10 fiskiskip í árslok. Á árinu var samið við skipasmíðastöð í Tyrklandi um smíði á þremur nýjum ísfisktogurum. Árið 2013 var samið við sömu skipasmíðastöð um smíði tveggja uppsjávarveiðiskipa. Fyrra uppsjávarskipið verður afhent í apríl næstkomandi en það seinna í árslok. Fyrsti ísfisktogarinn verður væntanlega afhentur upp úr miðju ári 2016.

Árið 2014 var afli skipa félagsins 50 þúsund tonn af botnfiski og 103 þúsund tonn af uppsjávarfiski.