*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 18. desember 2019 12:04

Hefur áhyggjur af lífeyrissjóðakerfinu

Gylfi segir stóran galla við lífeyriskerfið að ávöxtunarviðmið sé fast en byggi ekki á raunhæfu mati á líklegri framtíðarávöxtun.

Ritstjórn
Gylfi Magnússon.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, lýsir yfir áhyggjum af stöðu lífeyrissjóðskerfisins hér á landi í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni. Vísar Gylfi þar til fréttar Markaðarins, sem fjallar um að lækkandi langtímavextir og vaxandi lífslíkur geti orðið til þess að skuldbindingar íslensku lífeyrissjóðanna verði verulega vanmetnar ef ekki sé byggt á raunsæjum forsendum. Byggir frétt Markaðarins á grein Jóns Ævars Pálmasonar, sérfræðings í áhættugreiningu hjá Fjármálaeftirlitinu, um skuldbindingar lífeyrissjóðanna, sem birtist í nýútkomnu vefriti FME, Fjármálum.    

Að sögn Gylfa verður 2019 líklega, að því gefnu að markaðir hrynji ekki næstu tvær vikunnar, eitt besta ár lífeyrissjóðakerfisins frá upphafi hvað ávöxtun varðar. En skýringin sé fyrst og fremst lágir og lækkandi vextir sem kýli upp eignaverð til skamms tíma en þýði nánast óhjákvæmilega lægri ávöxtun í framtíðinni. Því verði sífellt erfiðara að ná ávöxtunarviðmiði sjóðanna, sem er 3,5%.

Gylfi segir það stóran galla við íslenska lífeyriskerfið að ávöxtunarviðmið sé fast en byggi ekki á raunhæfu mati á líklegri framtíðarávöxtun hverju sinni. Annar galli sé að ekki sé byggt á spá um þróun lykilbreyta, þ.e. um lífs- og örorkulíkur. Tryggingafræðileg staða sjóðanna sé því almennt ofmetin, svo að miklu muni. Loks segir Gylfi að það sé óhjákvæmilegt að bregðast við þessu og betra sé að gera það fyrr en síðar.