Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist líta svo á að siðareglur sem síðasta ríkisstjórn setti árið 2011 eigi enn við um störf ráðherra. Hann segist ekki hafa samþykkt nýjar siðareglur. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis.

Þann 6. ágúst sendi umboðsmaður Alþingis forsætisráðherra bréf þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hvort núverandi ríkisstjórn hefði samþykkt siðareglur fyrir ráðherra.

Í svari Sigmundar segir að með breytingu á stjórnarráðslögum sé ekki gerð krafa til ríkisstjórnar að setja sér siðareglur sérstaklega, heldur hafi samþykktar siðareglur gildi þar til þeim er breytt.

Þó segir Sigmundur að siðareglur ráðherra og hugsanlegar breytingar á þeim hafi komið til umræðu í ríkisstjórn og vel komi til greina að ráðast í breytingar á reglunum.

Að lokum spyr Sigmundur hvort settar hafi verið siðareglur fyrir embætti umboðsmanns Alþingis og ef reglur hafi verið settar hvort mögulegt sé að fá aðgang að þeim.