Heiðar Már Guðjónsson hefur sem kunnugt er talað lengi fyrir því að Ísland taki einhliða upp aðra mynt. Árin 2007 og 2008 voru hann og Ársæll Valfells, lektor við viðskiptafræðideild HÍ, áberandi í þeirri umræðu.

Aðspurður segist Heiðar Már vera enn sannfærðari en áður að krónan henti ekki Íslandi og nauðsynlegt sé að taka upp aðra mynt.

Það verði helst gert á þrjá vegu, í fyrsta lagi að ganga í myntbandalag sem gæti tekið í það minnsta fimm ár. Í öðru lagi væri hægt að stofna myntráð og binda krónuna við annan gjaldmiðil, og í þriðja lagi að taka upp einhliða nýjan gjaldmiðil. Að sögn Heiðars Más tekur hvort tveggja um fjórar vikur.

„Ég hef oft notað dæmið um Disney- dollarann, sem er í raun stærri en íslenska krónan. Meira að segja Mikka Mús dettur ekki í hug að vera með fljótandi gjaldmiðil og Jóakim Aðalönd sem seðlabankastjóra,“ segir Heiðar Már í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta gengur ekki upp í svona smáum ríkjum, nema kannski í Norður-Kóreu, sem er eina ríkið sem ekki hefur lent í fjármálakreppu. Meira að segja Kúba hefur lent í krísu. Ef menn vilja fara í það módel að hafa aldrei neinn fjármálaóróleika geta þeir svo sem tekið upp norður-kóreska módelið.“

Blaðamaður minnir á að hagfræðingar og aðrir spekingar hafi lítið gefið fyrir það sem Heiðar Már og Ársæll höfðu að segja á þessum árum. Heiðar Már svarar því til að á þeim tíma voru enn uppi ranghugmyndir um að Ísland gæti hagað sér eins og stórþjóð og að menn hefðu ekki viljað heyra á það minnst að við værum með minnsta gjaldmiðil í heimi.

Heiðar Már minnir á að í heiminum í dag séu um 200 sjálfstæð ríki, þar af um 40 með minna en 1 milljón íbúa. Af þeim 40 væri Ísland eina landið með sína eigin mynt.

„Það er erfitt að ímynda séð að hinar þjóðirnar 39 séu svona rosalega vitlausar,“ segir Heiðar Már.

Nánar er rætt við Heiðar Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu.