Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, lét til sín kveða á pallborðsumræðu á ráðstefnu Hringborðs Norðurslóða (Arctic Circle) sem fór fram í Hörpunni í síðustu viku. Heiðar, sem er stjórnarformaður Efnahagsráðs Norðuslóða (AEC), var gagnrýninn á stefnu Evrópusambandsins á Norðurslóðum.

„Við höfum séð stórar fjárfestingar á Norðurslóðum falla niður vegna tíðaranda að hverju sinni (e. mood of the moment),“ er haft eftir Heiðari í frétt High North News .

Framkvæmdastjórn ESB kallaði í síðustu viku eftir því að ekki verði ráðist í vinnslu á olíu, kolum og gasi á Norðurslóðum vegna loftslags- og umhverfissjónarmiða. Evrópusambandið mun leitast eftir samkomulagi við aðrar þjóðir til að koma í veg fyrir eða koma á tímabundnu banni á vinnslu vetniskolefna á Norðurslóðum, þrátt fyrir hækkandi orkuverð.

Slík stefna er „algjör skelfing fyrir fjárfesta“, sagði Heiðar. „Þegar fyrirtæki standa frammi fyrir óvissu, þá víkja þau undan. Við þurfum að festa niður regluverk til lengri tíma.“

Sjá einnig: Heiðar Guðjóns gagnrýnir afstöðu Nike

Michael Mann, fastafulltrúi ESB í málefnum Norðurslóða, hélt því fram að yfirlýsing sambandsins væri ekki atlaga að fyrirtækjum á norðurskautsslóðum. Hins vegar stefni ESB að því að koma í veg fyrir olíuborun.

„Við værum ekki trúverðug ef við myndum ekki ávarpa loftslagsvandann og taka afstöðu. Evrópusambandið gefur ekki út leyfi fyrir boranir en við munum vinna að þessu með öðrum þjóðum. Stefnan er upphafspunktur að umræðu. Eftir tíu ár munum við spyrja okkur af hverju var yfir höfuð þörf á að ræða þessa hluti. Af hverju létum við bara ekki vaða?“ sagði Mann.

Heiðari var ekki skemmt við þessi ummæli, samkvæmt High North News, og gagnrýndi lítil samskipti við stjórnvöld og samfélög.

„Þið sinnið ykkar málefnum á sérstakan hátt á Norðurslóðum. Annars vegar hvað varðar samgöngur en einnig ráðgjöf. Því miður, þá vantaði upp á samráð við stefnumótun ESB. Þið verðið að tala við heimafólk fyrst og spyrja hvaða viðhorf það ber til þessara svæða.“

„Þetta er eins og ef Efnahagsráðið (AEC) myndi segja: „við erum með hugmyndir um hvernig stýra eigi málefnum á Miðjararhafinu. Þið ættuð að hlusta á okkur, við vitum best!“ er haft eftir Heiðari sem bætti síðar við: „Málefni á Norðurslóðum verða að heyra undir stjórn heimafólks.“

„Ætla menn að fremja efnahagslegt harakíri að gamni sínu?“

Hann ræddi einnig um Norðurslóðirnar í hlaðvarpi Þjóðmála í lok september. Þar komu sömu mál til tals og nefndi Heiðar ákveðna þróun sem hann óttast, þar á meðal að ýmsir bankar væru farnir að skrá sig í átak um taka ekki þátt í fjármögnun orkuframkvæmda innan Norðurslóða.

„Þetta byggir á þeirri ranghugmynd að það búi enginn á Norðurslóðum, að þetta sé hálfgerður þjóðgarður sem eigi að vera ósnortinn,“ sagði Heiðar. „Auðvitað á þetta fólk, og við með talin, skilið að blómstra eins og önnur svæði.“

Hann sagði að hvergi annars staðar hafi verið gengið með ábyrgari hætti um umhverfið og náttúruauðlindir eins og á Norðurslóðum. Þau samfélög búi yfir ríkri sögu og þekkingu á sviði olíuleitar og -vinnslu, landbúnaðar og fiskveiðum. Auk þess sé umhvefissporið minnst hjá þessum löndum.

„Mér finnst algjörlega ólógískt að segja: við skulum halda áfram uppbyggingu á svæðum sem hafa ömurlega sögu að segja en loka fyrir þetta svæði sem hefur sýnt ábyrgustu stjórnina um hundruða ára skeið,“ sagði Heiðar.

Hann nefndi þar olíuleit og furðaði sig á þeim vonda stimpli sem sá iðnaður hefur fengið á sig á síðustu árum.

„Fólk virðist ekki skilja að allir flutningar heimsins, sem er undirstaða viðskipta, sem aftur er undirstaða velmegunar, eru meira og minna keyrðir áfram af olíu og gasi. Það er ekki í sjónmáli að það breytist á næstu áratugum,“ sagði Heiðar og beindi gagnrýni sinni að þeim sem vilja banna olíu- og námuvinnslu.

„Ef við ætlum að rafvæða þá þurfum við sannarlega miklu meiri olíuvinnslu. Það er ekki heil brú í þessu. Ætla menn bara að fremja efnahagslegt harakíri að gamni sínu?“

Hann bætti við að ef komið yrði í veg fyrir orkuframkvæmdir á Norðurslóðum þá verði einfaldlega gengið harðar á auðlindir annars staðar, sem séu óhagkvæmari og skítugri auk þess að hafa mun alvarlegri áhrif á umhverfið.