Samanlagður heildarafgangur ríkissjóðs fyrir árin 2014 til 2016 verður um 96 milljarðar króna, án stöðugleikaframlaga. Þetta kemur fram í frétt á vef Fjármálaráðuneytisins .

Þar kemur fram að stefna stjórnvalda undanfarin ár hafi byggst á ábyrgri stýringi ríkisfjármála og langtímasýn, með ráðadeild og skynsamlega nýtingu sameiginlegra fjármuna landsmanna að leiðarljósi. „Með markvissum aðgerðum hefur tekist að ná jafnvægi í ríkisfjármálum,“ er tekið fram.

Heildarskuldir ríkissjóðs fara úr 60% af VLF árið 2015 í 39% í árslok 2017. Stefnt er að því að hlutfallið verði 29% í árslok 2021.

Vaxtagjöld ríkissjóðs hafa einnig lækkað úr 79 milljörðum króna árið 2015 í 69 milljarða króna árið 2017. Það er lækkun árlegra vaxtagjalda um 10 milljarða króna á aðeins tveimur árum.

Forsendur skapast fyrir skattalækkunum

Í færslu Fjármálaráðuneytisins segir einnig: „Á síðustu árum hafa skapast forsendur fyrir skattalækkunum og breytingum til að auka skilvirkni skattkerfisins. Stefnan hefur verið að einfalda skattkerfið, draga almennt úr undanþágum og auka jafnræði. Eftirfarandi ráðstafanir hafa á undanförnum misserum stutt við kaupmáttaraukningu almennings og skilað sér til heimilanna.“

Tekjuskattur var til að mynda lækkaður í tveimur áföngum árið 2014 til 2017. Áhersla var einnig á að létta skattbyrði af tekjulægri einstaklingum og fækka skattþrepum. Almenn vörugjöld voru afnumin árið 2015. Allir tollar nema af tilteknum matvörum lagðir niður á tveimur áföngum á þessu ári og því næsta.