*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 10. maí 2020 13:03

Hið opinbera tregt til raforkuútboða

Framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar segir menn ganga ansi langt í að reyna að viðhalda ólögmætu ástandi.

Jóhann Óli Eiðsson
Magnús Júlíusson er framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar.
Eyþór Árnason

Vissrar tregðu virðist gæta þegar kemur að því að bjóða út raforkukaup hjá hinu opinbera. Nýlegir úrskurðir kærunefndar útboðsmála leggja línurnar í þeim efnum en að sögn framkvæmdastjóra Íslenskrar orkumiðlunar (ÍOM) þráast ýmsir aðilar við að sinna þeirri skyldu sinni.

„Við höfum allt frá stofnun reynt að fá veitufyrirtækin til að fara í útboð með sín raforkukaup. Þau hafa vægast sagt verið treg til þess,“ segir Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri ÍOM.

Fyrri úrskurðurinn sem vert er að nefna var kveðinn upp síðasta haust en hann varðar innkaup Rarik á raforku, án útboðs, af Orkusölunni til að mæta tapi í dreifikerfum sínum. ÍOM kærði þau innkaup, taldi að skylt hefði verið að bjóða samninginn út og krafðist þess að samningurinn yrði lýstur óvirkur. Í niðurstöðu nefndarinnar sagði að upphæð samningsins hefði verið yfir útboðsskyldumörkum og því skylt að bjóða samninginn út.

Síðari úrskurðurinn varðar innkaup á raforku fyrir Veitur. Þar hafði útboð farið fram og skilmálar settir fyrir því. Meðal annars skyldi lánshæfismat bjóðenda vera að lágmarki í flokki 1-4 og að heildarmeðalvelta mátti ekki vera lægri en 500 milljónir króna án virðisaukaskatts. Tveimur dögum áður en tilboð voru opnuð var bætt við skilyrði þess efnis að eiginfjárhlutfall samkvæmt ársreikningi 2018 skyldi vera að lágmarki 30%. Nokkrum klukkutímum síðar var það hlutfall hækkað á ný og átti það að vera 40%.

„Við tókum þátt í útboðinu og vorum hlutskarpastir í einum þætti þess. Á útboðstímanum var skilmálunum hins vegar breytt með íþyngjandi hætti án sérstaks rökstuðnings. Þannig að þrátt fyrir að eiga hagstæðasta tilboðið vorum við útilokaðir frá þátttöku í því,“ segir Magnús.

Í stað þess að semja við ÍOM var gengið að tilboði Orku náttúrunnar en bæði Veitur og Orka náttúrunnar eru innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Eftir niðurstöðu útboðsins hafi lítið annað verið í stöðunni en að láta reyna á málið fyrir kærunefndinni. Að mati nefndarinnar fólu fyrrnefndar breytingar á útboðsskilmálunum í sér verulegar breytingar sem óheimilt hafi verið að framkvæma þegar svo langt var liðið á tilboðsfrestinn. Þá þótti krafan um 40% eiginfjárhlutfall vera „óvenju hátt hlutfall miðað við það sem almennt gerist á útboðsmarkaði með raforku“. Þetta má geta að ÍOM vaf yfir 30% eiginfjárhlutfallsmarkinu en náði ekki 40%. Ákvörðun Veitna og OR var því felld úr gildi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér