Hildur Sverrisdóttir lögfræðingur sækist eftir stuðningi í 4. - 5.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2010.

„Ég býð mig fram til starfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur því ég tel að þekking mín og reynsla geti gagnast Sjálfstæðisflokknum í þeim mikilvægu verkefnum sem þarf að inna af hendi í þágu borgarbúa," segir Hildur í tilkynningu um framboð sitt.

„Reykjavík er öflug og lifandi borg, ekki síst vegna alls þess sem frumkvöðlar og einyrkjar hafa lagt af mörkum til eflingar á atvinnu- og menningarlífi borgarinnar. Ég tel miklu skipta að hlúa að þeim og skapa atvinnulífinu öllu þá umgjörð sem nauðsynleg er fyrir uppbyggingu efnahagslífsins. Ég hafna því að auknir skattar séu lausn á þeim efnahagslega vanda sem við okkur blasir og mun beita mér fyrir því að álögur á borgarbúa verði ekki auknar.

Ég tel mikilvægt að vinna að því að ná samtöðu og sátt á meðal borgarbúa um forgangsröðun verkefna og ráðstöfun úr sameiginlegum sjóðum og þar skiptir mestu að skilgreina grunnþjónustu borgarinnar.

Reykjavíkurborg verður að veita íbúum sínum þá þjónustu að eftirsóknarvert sé að búa í borginni m.a. með öflugum skólum, félagsþjónustu, samgöngum og tómstundaiðkun. Þá er mikilvægt að styðja sérstaklega við þá sem þurfa á aðstoð að halda. Skilyrðið fyrir því að Reykjavíkurborg geti veitt íbúum sínum öfluga þjónustu er að tekjustofnar borgarinnar séu traustir og unnið sé úr þeim, með það í huga, að um íþyngjandi gjaldtöku er að ræða

Í borgarstjórnarkosningunum í vor verður tekist á um þessi einföldu en jafnframt erfiðu atriði. Brýnt er fyrir sjálfstæðismenn að stilla upp lista sem Reykvíkingar geta treyst til þess að standa vörð um hagsmuni borgarbúa.”

Hildur er lögfræðingur og öðlaðist nýverið réttindi til héraðsdómslögmanns en hún lauk lagaprófi frá Háskólanum í Reykjavík.

Hildur starfar sem lögfræðingur hjá 365 miðlum ehf. Áður hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri V-dags samtakanna sem vinna gegn ofbeldi á konum, sem framkvæmdastjóri danshátíðarinnar Reykjavík Dance Festival og á sínum tíma starfaði hún einnig sem framkvæmdastjóri Jafningjafræðslunnar fyrir ÍTR og menntamálaráðuneytið. Auk þess hefur hún starfað í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og hjá lögmannsstofunni Ambrose Appelbe Solicitors í London. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Hildur er dóttir Rannveigar A. Jóhannsdóttur lektors á menntavísindasviði Háskóla Íslands og Sverris Einarssonar heitins rektors Menntaskólans við Hamrahlíð. Sambýlismaður Hildar er Teitur Björn Einarsson frá Flateyri.