Hlutabréf hækkuðu nokkuð í Asíu í dag og hafa að sögn Bloomberg fréttaveitunnar ekki hækkað jafn mikið á einum degi í á fjórða mánuð.

Það voru helst tæknifyrirtæki og bílaframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins en tölur um aukinn hagvöxt í Bandaríkjunum frá því í gær höfðu þannig jákvæð áhrif á markaði í Asíu að sögn Bloomberg.

Sem dæmi má nefna að Toyota hækkaði um 3,4% og þá hækkaði leikjatölvuframleiðandinn Nintendo um 8,4% þar sem búist er við frekari útflutningi til Bandaríkjanna.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði um 2,3% og hefur hækkað um 3% í vikunni en engu að síður lækkað um 21% það sem af er árinu.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 2,4%, í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 1,4% og í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 1,7%.

Í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 1,6% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 1,4%.