Dregið hefur úr hækkunum á íslenskum hlutabréfum undanfarið og lækkaði Úrvalsvísitalan um 1,66% í maí mánuði eins og greiningardeild KB bendir á í Hálffimm frétum sínum. Verð flestra félaga í Úrvalsvísitölunni breyttist lítillega í mánuðinum og þau félög sem hækkuðu mest, að teknu tilliti til arðgreiðslna, eru Burðarás, Bakkavör, Marel og Grandi. Átta félög vísitölunnar lækkuðu í mánuðinum á meðan að sex hækkuðu og tvö stóðu í stað.

Burðarás hækkaði 4,63% í mánuðinum en hækkunin varð öll í gær þegar að félagið seldi alla hluti sína í Eimskipafélaginu til Avion Group. Miklar sveiflur voru á gengi Actavis í mánuðinum en það fór hæst í 47,8 þegar félagið tilkynnti um kaup sín á bandaríska samheitalyfjafyrirtækinu Amide. Gengi félagsins lækkaði síðan jafnt og þétt og er nú líkt og það var áður en það tók að hækka í tengslum við kaupin. Athygli vekur að gengi félagsins sem hafði verið nokkuð stöðugt í mánuð byrjaði að hækka hratt nokkrum dögum áður en tilkynnt var um kaupin á félaginu.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 20% á árinu og hafa öll félögin í henni hækkað nema Flaga. FL Group hefur hækkað mest það sem af er ári eða um 52,75%. Næst kemur Bakkavör Group sem hefur hækkað um 45,45%. Flest félögin hafa skilað mjög góðri ávöxtun að Össuri og Flögu undanskildu.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.