Ákveðið hefur verið að auka hlutafé lettneska bankans Norvik Bank, áður Lateko Banka, um 33 milljónir evra eða tæpa þrjá milljarða króna. Aukningin mun að öllum líkindum eiga sér stað í næsta mánuði. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Að sögn Jóns Helga Guðmundssonar, stjórnarformanns Norvik Bank, er ætlunin að fylgja eftir vexti bankans með þessari hlutafjáraukningu en núverandi eigendur hafa gefið sterkar yfirlýsingar um að þeir hyggist styðja við vöxt bankans. "Við erum að styðja við vöxt bankans og erum að auka eigið fé hans eftir þörfum, það er yfirlýst stefna okkar. Hvaða tölur kom út úr því fer eftir því hvað okkur tekst að vaxa hratt," sagði Jón Helgi.

Núverandi eigendur bankans munu standa að aukningunni eins og áður hafði komið fram í Viðskiptablaðinu og verður ekki leitað út fyrir þann hóp. Stærsti hluthafinn í Norvik Bank er íslenska eignarhaldsfélagið Straumborg með 51,06% en það er í eigu Jóns Helga og fjölskyldu.

Sérfræðingum matsfyrirtækisins Moody´s hefur verið gerð grein fyrir hlutafjáraukningunni en þeir hafa að undanförnu unnið að lánshæfismati fyrir bankann, því fyrsta sem hann fær frá Moody´s. Sagði Jón Helgi að sérfræðingar Moody´s hefðu farið yfir alla starfsemi bankans undanfarið og sagðist hann gera ráð fyrir því að mat kæmi frá þeim í næsta mánuði. Matsfyrirtækið Fitch Ratings tók Norvik Bank út í haust og gaf bankanum jákvæðar horfur og einkunina B+. Að sögn Jóns Helga er gert ráð fyrir að Fitch gefi bankanum nýja einkunn næsta haust.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.