Rannsóknasetur vinnuréttar hefur birt upplýsingar um hlutfall kvenna í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda í 120 stærstu fyrirtækjunum á Íslandi fyrir árið 2008.

Helstu niðurstöður eru þær að konur skipa 13% stjórnarsæta og eru æðstu stjórnendur (forstjóri eða framkvæmdastjóri) fyrirtækja í 8% tilvika. Hlutfall kvenna meðal æðstu yfirmanna, þ.e. þeirra sem koma næstir í skipuriti á eftir æðsta stjórnanda, er 19%.

Rannsókninni stýrir Elín Blöndal, prófessor, en hún var unnin í samstarfi við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Bifröst.

Samkvæmt skýrslunni skipta konur sem fyrr segir 13% stjórnarsætanna (61 af 467 stjórnarsætum). Árið 2007 var hlutfall þeirra 8%.

Þá kemur fram að í þeim 11 fyrirtækjum á listanum sem skráð eru í Kauphöllinni skipa konur 6 af 62 stjórnarsætum eða um 10% stjórnarsæta.

Í þrettán af 120 stærstu fyrirtækjunum er stjórnarformaðurinn kona. Árið 2007 voru þrjár konur stjórnarformenn í 100 stærstu fyrirtækjunum. Engin kona er stjórnarformaður í þeim fyrirtækjum á listanum sem skráð eru í Kauphöllinni.

Þá eru konur 19% meðal æðstu yfirmanna fyrirtækjanna (72 konur af 378 æðstu yfirmönnum) en árið 2007var hlutfall þeirra um 14%.

Þá kemur fram í skýrslunni að engin kona er í stjórn 57% fyrirtækjanna en árið 2007 voru 71% fyrirtækjanna án konu eða kvenna í stjórn.

Birting upplýsinganna er liður í verkefninu Jafnréttiskennitalan, en samstarfsaðilar þess eru viðskiptaráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa. Auk þess styrkja Inn-fjárfesting og Baugur group verkefnið árið 2008.

Skýrslan er birt í heild sinni á heimasíðu Háskólans á Bifröst.