Fjárfestar sem keyptu hlutabréf í Facebook eru ævareiðir yfir döpru gengi netfyrirtækisins á hlutabréfamarkaði og hafa þeir höfðað mál á hendur bönkunum Morgan Stanley, Goldman Sachs og JP Morgan Chase, sem sáu um útboðið og kauphallarskráninguna ásamt stjórnendum Facebook. Fjárfestarnir saka hlutaðeigandi um að hafa beitt brögðum til laða fjárfesta að félaginu.

Málið var höfðað fyrir dómsstóli Manhattan í New York í dag. Sami fjárfestahópur höfðaði mál gegn Nasdaq-OMX-markaðnum í Bandaríkjunum vegna sama máls í gær.

Í umfjöllun Bloomberg-fréttastofunnar um málið kemur fram að í kærunni eru bankarnir sakaðir um að hafa falið væntan tekjusamdrátt hjá Facebook. Fjárfestarnir hafi tapað samtals 2,5 milljörðum dala á viðskiptunum frá skráningu Facebook á markað á föstudag. Þetta jafngildir 625 milljónum dala á þessum fjórum viðskiptadögum sem liðnir eru eða sem nemur 80 milljörðum íslenskra króna á dag.