*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 8. mars 2021 16:44

Hluthafar kjósa um samruna TM og Kviku

Kosið verður um samruna félaganna auk Lykils á hluthafafundum beggja félaga þann 30. mars næstkomandi.

Ritstjórn
Sigurður Viðarsson forstjóri TM og Marinó Örn Tryggvason bankastjóri Kviku banka.
Haraldur Guðjónsson

TM og Kvika banki hafa hvert um sig boðað til hluthafafundar þann 30. mars næstkomandi, á Hilton Reykjavík Nordica klukkan 16, til að kjósa um samruna félaganna tveggja auk Lykils fjármögnunar, sem er í eigu TM. Þetta kemur fram í tilkynningum frá báðum félögum.

Auk samrunatillögunnar verður á fundi Kviku lögð fram tillaga um breytingar á samþykktum félagsins vegna samrunans, nánar tiltekið hækkun hlutafjár.

Á dagskrá fundar TM eru engin önnur sérstaklega tilgreind mál, en eftir samrunatillöguna verða borin upp og rædd önnur mál.

Samrunaviðræður skráðu félaganna tveggja hófust formlega í lok september síðastliðnum, en orðrómur hafði þá verið um þreifingar þess efnis allt frá síðasta sumri. Það samkomulag sem úr því kom felur í sér að Kvika tekur yfir TM, en hluthafar TM eignast á móti ríflega 2,5 milljarð hluti í Kviku, eða sem nemur um 55% eignarhlut.

TM hafði keypt Lykil nokkru fyrr. Um kaupsamning var tilkynnt í október 2019, og í janúar í fyrra fékkst samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir kaupunum, auk þess sem Samkeppniseftirlitið hafði einnig samþykkt þau nokkru fyrr, og þau gengu því í gegn í janúarbyrjun.