Samkvæmt frétt Ríkissjónvarpsins hefur stjórn Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka samþykkt að selja tæplega þriðjung hlutafjár í Íslandsbanka til hóps kaupenda undir forystu Karls Wernerssonar. Kaupverðið er tæplega 70 miljarðar króna.

Þreifingar hafa staðið um sölu á hluta Straums Burðaráss í Íslandsbanka um allnokkurt skeið og mátti litlu muna að saman gengi með núverandi kaupendahópi og seljanda skömmu fyrir jól. Straumur Burðarás átti ríflega 28% hlut í bankanum, eða tæplega þriðjung. Hafði forstjóri félagsins, Þórður Már Jóhannsson, greint frá því að hluturinn væri til sölu.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu sjónvarps samanstendur kaupendahópurinn af einstaklingum og fyrirtækjum. Kaupin á bréfunum eru stærstu einstöku hlutabréfaviðskipti sem átt hafa sér stað á Íslandi svo vitað sé. Kaupendur hlutabréfanna í Íslandsbanka létu á móti hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum, til dæmis KB-banka og Actavis.

Samanlögð upphæð viðskiptana eru samkvæmt upplýsingum fréttastofu sjónvarpsins yfir 100 miljarðar króna. Þá er miðað við miðlun hlutabréfa milli kaupenda og seljenda. Ekki fæst uppgefið hverjir nákvæmlega mynda hóp kaupenda, en staðfest hefur verið að fyrir honum fer Karl Wernersson. Fréttastofa greindi frá því að hún hefði heimildir fyrir því að aðrir sem tengjast kaupunum annað hvort í eigin nafni eða í gegnum fyrirtæki sín, séu Jón Snorrason, FL-Group og Jón Ásgeir Jóhannesson.