Íslandsbanki lækkaði á dögunum fasta verðtryggða vexti sína myndarlega, til að gera þá samkeppnishæfa við þá óverðtryggðu á ný. Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri bankans, segir að koma verði í ljós hversu margir færa sig aftur yfir í verðtryggð lán með hækkandi greiðslubyrði þeirra óverðtryggðu.

Bankinn herti á greiðslumati þegar vextir voru sem lægstir eftir stýrivaxtalækkanir vegna faraldursins. Þrátt fyrir það segir Jón Guðni ekki útilokað að einhverjir af nýlegum lántakendum muni lenda í vandræðum með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum nú þegar vextir eru teknir að hækka á ný.

Hertu greiðslumat vegna lágra vaxta
Í sömu tilkynningu og greint var frá lækkun fastra verðtryggðra vaxta Íslandsbanka nýlega var einnig greint frá 20 punkta hækkun breytilegra óverðtryggðra vaxta, og fastra til þriggja ára. Stýrivextir hafa nú hækkað um 1,25 prósentur frá lágpunktinum í 0,75, og Seðlabankinn gefið út að frekari hækkanir séu í vændum. Það er því viðbúið að breytilegir óverðtryggðir vextir, ásamt föstum óverðtryggðum á nýjum lánum, muni einnig halda áfram að hækka, með tilheyrandi áhrifum á greiðslubyrði.

Leiða má að því líkum að það verði sumum þungur baggi, enda hækkar mánaðarleg greiðslubyrði 50 milljóna króna óverðtryggðs láns um tæpar 42 þúsund krónur fyrir hvert prósentustig. Jón Guðni segir bankann hafa verið nokkuð varan um sig í útlánum þegar vextir voru í lægstu lægðum, en þrátt fyrir það megi búast við að sumir geti lent í vanda.

„Við hertum á greiðslumatinu hjá okkur þegar vextir urðu mjög lágir, til þess einmitt að forðast það að setja fólk í þessar aðstæður og frá því að lenda í vandræðum. Þar höfum við byggt inn smá varúð.“

Lenging, jafnar greiðslur eða verðtrygging
Til viðbótar segir hann marga hafa fest óverðtryggða vexti síðustu misseri, sem muni veita þeim skjól næstu ár, en eins og flestir muna mælti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri eindregið með því í hlaðvarpsviðtali síðasta sumar að fólk festi vexti lána sinna. „Þrátt fyrir það er náttúrulega ekki hægt að útiloka það að einhverjir lendi í vandræðum þegar vextir fara hækkandi.“

Þeir valkostir sem fólk stendur þá frammi fyrir til að lækka greiðslubyrðina eru að lengja í lánum ef svigrúm er til þess, skipta yfir í jafnar greiðslur ef lánið ber jafnar afborganir, eða að færa sig yfir í verðtryggt lán.

„Það var orðin svo mikil breyting á stemningunni og áhuganum, fólk farið að færa sig svo mikið yfir í óverðtryggt. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort það sé varanleg breyting eða hvort fólk flykkist aftur yfir í verðtryggt þegar vaxtastigið breytist aftur,“ segir Jón Guðni að lokum.

Velji fólk verðtrygginguna til að skýla sér frá hækkandi greiðslubyrði er í það minnsta nokkuð ljóst hvar bestu kjörin er að fá á almennum markaði eins og staðan er í dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .