Í tilkynningu frá hollensku ríkisstjórninni sem gefin var út í dag segir að her Hollands muni taka aukinn þátt í loftárásum gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS í Sýrlandi.

Þegar eru sex herþotur hollenska hersins staðsettar á svæðinu, en þær hafa aðeins gert loftárásir á bækistöðvar ISIS í Írak. Nú munu þoturnar gera árásir á stöðvar í Sýrlandi auk þeirra í Írak.

Að sögn varnarmálaráðherra Hollands verða framfarnirnar sem náðst hafa í baráttunni gegn ISIS í Írak fyrir bí ef hryðjuverkasamtökin eru enn í stöðu til þess að veita herliði sínu aðstoð frá Sýrlandshliðinni.

Þá hefur ríkisstjórnin hollenska einnig rætt þann möguleika að senda Íröskum stríðsmönnum hergögn og vopn til þess að kljást við hryðjuverkamennina.