Hráolíubirgðir hafa aukist eftir að tilkynnt var um framleiðsluaukningu í síðustu viku og mun því verða auðveldara að mæta væntri eftirspurn. Í kjölfarið hefur hráolíuverð lækkað tvo daga í röð.

Olíuverð náði hámarki 4. apríl sl. og kostaði þá tunnan $58,28, en í gær náði verðið $55,55 og hefur ekki verið jafn hátt síðan í lok apríl. Hráolía til afhendingar í júlí lækkaði um 42 cent, í $54,07 á tunnu í New York, en um 19 cent í Lundúnum og var $53,48 á tunnu og hefur verðið þar hækkað um 49% síðastliðið ár.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að framboð í Bandaríkjunum eru nálægt 6 ára hámarki vegna aukinnar olíuframleiðslu OPEC-ríkjanna og eru olíuhreinsunarstöðvar í Bandaríkjunum að auka framleiðsluhraða sinn til að mæta eftirspurn sumarsins og undirbúa sig fyrir olíuframleiðslu næsta vetrar. "Framleiðsla OPEC-ríkjanna er mikil um þessar mundir og var dagsframleiðsla síðasta mánaðar tæpar 30 milljón tunnur að meðaltali. Samkvæmt Bloomberg er olíuframleiðsla nálægt 25 ára hámarki sem er 30,54 milljónir tunna á dag. Næsti fundur þeirra verður haldinn í Vín þann 15. júní og verður þar rætt um framleiðslu og verð," segir í Vegvísi Landsbankans.

Olíuverð í New York hefur hækkað um 4,3% það sem af er júní mánuðu, annars vegar vegna 2,9% minni birgða en venjulega og hins vegar vegna þess að óvissa ríkir um hver framleiðslan verður og því ekki víst að það náist að auka birgðir fyrir fjórða fjórðung. Óvissan veldur því að sérfræðingar Bloomberg telja hugsanlegt að verðið hækki enn frekar.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.