Viðskiptajöfnuður mældist óhagstæður um 53,6 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2010, samanborið við 11,9 milljarða hagstæðan jöfnuð á fjórðungnum á undan. Afgangur af vöruskiptum við útlöndu var 30,1 milljarður króna og 1,7 milljarða afgangur var á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 83 milljarða króna.

Seðlabankinn birti í dag upplýsingar um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi.

Í umfjöllun bankans segir að halla á þáttatekjum á fjórða ársfjórðungi megi eins og áður rekja til innlánsstofnana í slitameðferð. „Reiknuð gjöld vegna þeirra námu 37,5 ma.kr. og tekjur 3,1 ma.kr. Jöfnuður þáttatekna án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var óhagstæður um 51,1 ma.kr. og viðskiptajöfnuður 19,3 ma.kr.“

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu tæplega 4.000 milljörðum króna í lok árs 2010 en skuldir námu 13.291 milljörðum. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 9.326 milljarða. Á milli ársfjórðunga lækkuðu nettóskuldir um 141 milljarð. Að frátöldum innlánsstofnunum í slitameðferð námu eignir þjóðarbúsins 2.441 ma.kr. og skuldir 2.875 ma.kr. og var hrein staða þá neikvæð um 434 ma.kr.

Betri upllýsingar um erlenda fjárfestingu

„Betri upplýsingar liggja nú fyrir um beina erlenda fjárfestingu vegna fyrstu þriggja ársfjórðunga ársins 2010 en áður höfðu verið birtar áætlaðar tölur. Helsta breytingin á beinni erlendri fjárfestingu Íslendinga erlendis er að lánaskuldir voru hærri en áður var áætlað. Vaxtagjöld voru einnig hærri sem hefur neikvæð áhrif á þáttatekjujöfnuð sem nemur um 11 ma.kr. samanlagt á viðkomandi ársfjórðungum. Endurskoðaðar tölur hafa einnig áhrif á fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi en eigið fjármagn þeirra var umtalsvert hærra en áður hafði verið áætlað eða um 114 ma.kr. sé miðað við þriðja ársfjórðung. Hvað áhrif á viðskiptajöfnuð varðar munar þó mestu um að tap innlendra félaga í eigu erlendra aðila var ekki eins mikið og áætlað hafði verið. Neikvæð endurfjárfesting þeirra er því mun minni sem þýðir meiri halla á þáttatekjujöfnuði en áður var áætlað.“

Þá kemur fram að til stóð að birta endurskoðun á landa- og atvinnugreinaskiptingu beinnar erlendrar fjárfestingar fram til ársins 2009 hinn 9. mars nk. en engin breyting hefur orðið á áður birtum tölum.