Viðskiptabankarnir þrír voru með einungis 5,4 milljarða hrein ný útlán í janúarmánuði, og hafa þau ekki verið minni frá því í ágúst 2016 á einum mánuði að því að Morgunblaðið greinir frá.

Hrein ný útlán eru útlán umfram uppgreiðslur lána, en hrein útlán í hverjum mánuði á síðasta ári námu um 17,4 milljörðum að meðaltali. Sú tala hefur þó farið lækkandi og varð einnig töluverður samdráttur í desember, en þá námu þau 6,2 milljörðum króna.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að þarna sé aðhald peningastefnunnar að koma fram af fullum þunga og útlánageta bankanna því að dragast saman.

„Þetta er auðvitað áhyggjuefni, einkum nú þegar allir hagvísar eru á hraðri niðurleið, kólnun framundan í hagkerfinu. Krónuskortur í bankakerfinu er aðeins til þess fallinn að kæla hagkerfið enn hraðar og meira en ástæða er til,“ segir Ásdís.

„Hér áður fyrr höfðu seðlabankar eitt stjórntæki, stýrivexti, en í dag eru stjórntækin fleiri og ýmis þjóðhagsvarúðartæki einnig í notkun á sama tíma sem áhrif hafa á útlánagetu bankanna og þar með útlánavöxtinn. Hér er um að ræða stjórntæki eins og innflæðishöftin sem loka á fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum skuldabréfum og þar með fjármögnun erlendra aðila sem dæmi í innlendum bankabréfum.“