Heilsuræktarstöðin Hreyfing er flutt úr Faxafeni þar sem hún hefur verið til húsa í tíu ár. Viðskiptavinir Hreyfingar mæta nú í Glæsibæ þar sem Hreyfing og Blue Lagoon Spa hafa opnað sameiginlega heilsulind, segir í frétt frá líkamsræktarstöðinni.

Húsnæðið er um 3.600 fermetrar að stærð, tvöfalt stærra en gamla húsnæðið í Faxafeni.

„Við vildum þó ekki hafa húsakynnin of stór, heldur gera þau sem notalegust til að stuðla að vellíðan viðskiptavina okkar, enda eru þau fremur hugsuð sem klúbbur en stöð. Við munum takmarka fjölda viðskiptavina hverju sinni svo að ekki myndist biðraðir í tækin,“ segir Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, í fréttinni.

Allur tækjabúnaður Hreyfingar hefur verið endurnýjaður í tengslum við flutningana. Sem dæmi má nefna að öll þoltæki á staðnum eru útbúin sjónvarpsskjám með tengi fyrir i-Pod.   Hjá Hreyfingu og Blue Lagoon Spa verður boðið upp á ýmsar nýjungar og meðferðir sem ekki hafa verið í boði hér á landi áður, segir í fréttinni. Má þar t.d. nefna fljótandi djúpslökun þar sem slökunin er slík að 50 mínútur eru taldar jafnast á við allt að 8 tíma svefn.

Í nýju stöðinni verða í boði endurnærandi spa-meðferðir með Blue Lagoon vörum.Jákvæð áhrif Bláa lónsins á húðina eru vel þekkt en nýlegar rannsóknir hafa sýnt að náttúruleg virk hráefni Bláa lónsins, kísill og þörungar, vinna gegn öldrunareinkennum.

Í heilsulindinni er veitingaaðstaða þar sem boðið er upp á úrval hollra veitinga. Á skjólgóðu útisvæði verða heitir pottar og gufuböð og nálægðin við Laugardalinn býður upp á ýmsa útivistarmöguleika.

Teiknistofan Óðinstorgi teiknaði húsið, VA arkitektar sáu um hönnun innanhúss og aðalverktaki við byggingu var Íslenskir aðalverktakar.Við hönnun spa-svæðisins var kappkostað að skapa tengingu við náttúrulegt umhverfi Bláa lónsins.