Frá 1. janúar 1997 hafa gilt samræmdar reglur um uppruna vöru í innbyrðis fríverslunarsamningum Evrópubandalagsins, Íslands, Noregs, Lichtenstein, Rúmeníu og Búlgaríu. Það þýðir m.a. að framleiðsluvörur skulu taldar upprunnar á Íslandi ef þær verða til þar og innihalda efni sem upprunnin eru í öðrum ríkjum sem samræmdu upprunareglurnar taka til að því tilskildu að aðvinnsla á Íslandi sé umfram þær aðgerðir sem eru skilgreindar sem ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt ákvæðum samninganna.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins kemurfram að nú eiga átta ríki við Miðjarðarhaf (Alsír, Egyptaland, Ísrael, Jordanía, Líbanon, Marokkó og Sýrland) auk sjálfstjórnarsvæðis Palestínumanna og Færeyjar þess kost að gerast aðilar að samræmdu upprunareglunum. Þetta byggir á sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna og ríkja við Miðjarðarhaf ásamt sjálfstjórnarsvæðis Palestínumanna í Barcelona árið 1995 um að stefnt skyldi að nánari efnahagslegri samvinnu á svæðinu.

Önnur ríki, þ.á m. Ísland, hafa fallist á að taka þátt í samstarfinu.
Síðar var Færeyjum boðin þátttaka í samstarfinu. Það er hins vegar ekki ljóst á þessari stundu hvort áðurnefnd ríki og svæði kjósi að gerast aðilar að
reglunum en til þess að öðlast aðild að reglunum þurfa þau að taka upp
samræmdu upprunareglurnar í sína samninga. Aðild fleiri ríkja að samræmdu reglunum gerir íslenskum fyrirtækjum kleift að leita aðfanga víðar með hagkvæmari hætti. Aðild Færeyja að samræmdu upprunareglunum mundi t.d. veita íslenskum fiskframleiðendum tækifæri til þess að nota hráefni, sem upprunnið er í Færeyjum, í auknum mæli til framleiðslu á vörum sem eiga að njóta fríðindameðferðar á grundvelli bókunar 4 við EES-samninginn.