Bandaríska flugfélagið Delta Airlines hefur flogið milli New York og Keflavíkur frá sumrinu 2011. Fyrstu fjögur sumur félagsins hér á landi flaug flugfélagið með 93 þúsund farþega milli Íslands og Bandaríkjanna, en Túristi segir frá því að gera megi ráð fyrir að farþegarnir séu orðnir tíu þúsund á þessu ári og því hafi samtals hundrað þúsund farþegar nýtt sér þessa flugleið Delta frá árinu 2011.

Túristi greinir frá því að flugleiðin hafi verið vel nýtt og sumarið 2013 hafi 88 prósent sætanna selst og í fyrra var sætanýtingin 85 prósent. Samkvæmt upplýsingum sem Túristi hefur frá flugfélaginu nýtur Ísland mikillar hylli meðal farþega sem hefja ferðalag sitt í Los Angeles, San Francisco, Chicago, Atlanta, San Diego, Detroit, Orlando og Baltimore. Hins vegar fljúgi íslenskir farþegar helst til New York eða millilendi þar á leið sinni til fáeinna borga í Bandaríkjunum.