Game of Thrones þættirnir, byggðir á metsölubókum George R.R. Martin, hafa farið sigurför um heiminn og virðast vera vinsælli með hverri þáttaröð sem líður.

Meðal þess sem finna má í þáttunum eru magnaðir kastalar af öllum stærðum og gerðum. Kastalinn í höfuðborginni „King's Landing“ er engin smásmíði og kostar líka skildinginn. Reiknar breski íbúðalánasjóðurinn London & Country Mortgages út að kastalinn sé metinn á einn milljarð punda. Til að festa kaup á kastalanum þyrfti maður að reiða fram 250 milljónir í reiðufé og fá lán upp á 750 milljónir. Mánaðarleg afborgun yrði svo rúmlega 3,2 milljónir punda.

Þeir sem þrá ekki slíkan lúxus sem King's Landing býður upp á geta gert mun hagstæðari kaup. Castle Black, sjálfur kastali Næturvarðanna við enda Westeros heimsins, er mun ódýrari. Hann kostar einungis 11,8 milljónir punda og eru afborganir lítil 37,800 pund á mánuði. Talsvert viðráðanlegra.

Gríðarleg vinna fór í að verðmeta kastalana og reikna út afborganirnar og má sjá verðmatið í heild sinni með því að smella hér . Þar er farið yfir fimm aðra kastala, þar á meðal einn sem metinn er á 6,5 milljarða punda.