*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 11. desember 2018 12:32

„Í þágu ríkasta minnihluta þjóðarinnar“

Formaður VR segir aðra hópa njóta góðs af sveiflum krónunnar og að „raunverulegar kerfisbreytingar“ séu lykill að sátt.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að það þurfi að liggja fyrri eins fljótt og hægt er hvort þeir nái saman við samtök atvinnulífsins í kjaraviðræðum að því er Fréttablaðið segir frá.

„Við ætlum að setja allt púður í þetta í vikunni en ég held að framhaldið muni skýrast í lok vikunnar. Ef niðurstaðan verður sú að málinu verði vísað til ríkissáttasemjara munum við leggja allt í sölurnar til að ná saman þar,“ segir Ragnar Þór.

Samninganefndir VR og SA hafa þegar átt nokkra fundi og hittast aftur í dag, en Ragnar segir samningana mjög flókna. „Svo er bara spurning hvort við þurfum á einhverjum tímapunkti að endurskoða okkar nálgun.“

Byrjað að ræða launamálin aðeins

Að sögn Ragnars Þórs hefur aðeins verið byrjað að ræða launalið kjarasamninganna sjálfra, en á sama tíma sé verið að vinna að ýmsum praktískum atriðum og bókunum, sem og að hópavinnu hafi verið komið af stað með sérfræðingum.

„Ég held að lykillinn að sáttinni liggi fyrst og fremst í raunverulegum kerfisbreytingum til að reyna að bæta hér lífskjör fólks á kannski mun breiðari skala en gert hefur verið áður,“ segir Ragnar sem ítrekar það sem hann sagði við Viðskiptablaðið á sínum tíma um að hann vilji semja til lengri tíma.

„Lengri samningi fylgja að mínu mati meiri líkur á raunverulegum kerfisbreytingum. [...] Ég er ekki hlynntur því ástandi sem verið hefur að félögin eru alltaf að semja til tólf mánaða með sex mánaða millibili. Við gerum samning, svo koma aðrir hópar og vilja meira.“

Einnig segir Ragnar Þór að þó ekki verði hægt að ræða breytingar á gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar innan tímaramma þessa samnings sé æskilegt að ræða þau til framtíðar.

„Við vitum það að gjaldmiðillinn okkar hefur verið notaður í þágu ríkasta minnihluta þjóðarinnar. Það er okkar hópur sem borgar fyrir sveiflur á gjaldmiðlinum en svo eru aðrir hópar í okkar samfélagi sem njóta á móti góðs af því.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is