Iceland Lava Show hlaut Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar þetta árið en Eliza Reid afhenti verðlaunin við athöfn á Bessastöðum í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF).

Hjónin Ragnhildur Ágústsdóttir og Júlíus Ingi Jónsson eru stofnendur sýningarinnar en hún kviknaði fyrir rúmum áratug þegar þau gengu upp að eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Upplifunin þar var slík að þau fýsti að færa sjónarspilið til fólks með öruggum hætti.

Icelandic Lava Show opnaði árið 2018, á hundrað ára afmæli síðasta Kötlugoss, í Vík í Mýrdal. Áform eru uppi að opna nýja sýningu á Granda í Reykjavík samhliða aðkomu nýrra fjárfesta í félaginu og með tíð og tíma er markmiðið að koma Lava Show á fleiri heita reiti í heiminum.

„Við erum alveg í skýjunum með þessa viðurkenningu og lítum á verðlaunin sem hvatningu til að halda áfram að vaxa og dafna,“ er haft eftir Ragnhildi Ágústsdóttur, stofnanda og eins eigenda Icelandic Lava Show, í tilkynningunni.

„Eins og allir þekkja sem hafa farið í gegnum stofnun fyrirtækis, þá er það hlykkjóttur vegur varðaður ótal hindrunum. Það á ekki síst við þegar um nýsköpun er að ræða. Mörgum þótti hugmyndin brjálæðisleg en okkur tókst að hrinda henni í framkvæmd í Vík í Mýrdal með mikilli vinnu og elju. Þetta hefur alls ekki verið auðveld vegferð en lærdómsrík og við erum afskaplega stolt af því að geta lagt okkar af mörkum til að auðga íslenska ferðaþjónustu,“ segir Ragnhildur.

Þetta er í átjánda skiptið sem verðlaunin eru veitt en á faraldursárinu 2020 voru þau veitt ferðaþjónustunni í heild. Þar áður hrepptu Sjóböðin á Húsavík hnossið. Markaðsstofa Norðurlands, vegna Arctic Coast Way, og Vök Baths í Fellabæ hlutu nýsköpunarviðurkenningu en þau voru, auk Icelandic Lava Show tilnefnd til verðlaunanna í ár.