Icelandair sagði upp 31 fastráðnum flugmanni flugfélagsins frá og með 1. ágúst síðastliðnum og munu þeir vinna út næsta mánuð.

Fram kemur í Fréttabréfi Félags íslenskra atvinnuflugmanna , FÍA, að uppsagnirnar nú séu færri en á sama tíma í fyrra. Í fréttabréfinu segir að síðasta vetur hafi FÍA og Icelandair gert samkomulag um yfirmönnun um u.þ.b. 20 manns yfir vetrartíman gegn því að mannskapurinn samþykkti undirmönnun yfir sumarið við vissar aðstæður. Ekki hafi verið vilji hjá Icelandair til að endurnýja samkomulagið fyrir komandi vetur. Það séu vonbrigði þar sem meirihluti flugmanna úr þessum uppsagnarhópi hefðu haldið vinnunni í vetur.

Þá er tekið fram í fréttabréfinu að það séu starfsmenn Icelandair, nú sem endranær, sem taka á sig árstíðasveifluna, þrátt fyrir að félagið sé að skila methagnaði ár eftir ár. Starfsmenn sem voru að vinna sitt 6. og 7. sumar séu nú að fara enn einn veturinn í uppsögn, atvinnuleysi sem fyrirséð var við ráðningu á sínum tíma að yrði 2-3 vetur. Þetta sé starfsmannastefna nútímans þar sem hluthafar, þar á meðal stofnanir eins og Framtakssjóður Íslands, standi fyrir.