Forseti Íslands hefur enn ekki fengið lögin um Icesave-ríkisábyrgðina í sínar hendur en þau fóru frá Alþingi í morgun til fjármálaráðuneytisins, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Þaðan verða þau send forsætisráðuneytinu og síðan til forseta Íslands.

Í 26. grein stjórnarskrárinnar segir að ef Alþingi hafi samþykkt lagafrumvarp skuli það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt. Staðfestingin veitir því lagagildi.

Alþingi samþykkti frumvarpið 28. ágúst.

Það var ekki sent áfram frá Alþingi til fjármálaráðuneytisins fyrr en búið var að prenta lögin og lesa þau yfir, samkvæmt upplýsingum frá Alþingi. Fjármálaráðherra ber stjórnskipulega ábyrgð á lögunum og því þarf hann að undirrita þau áður en þau fara áfram. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er miðað við að lögin verði send forsætisráðuneytinu í dag.

Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja

Skorað hefur verið á forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar. „[S]ynjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar [...]," segir í stjórnarskránni

Staðfesti forseti hins vegar lögin er ekki þar með sagt að Icesave-samningarnir séu í höfn. Í fyrstu grein laganna segir nefnilega að það sé skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem séu settur við ábyrgðina og að þau fallist á þá.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hafa íslenskum stjórnvöldum ekki borist nein formleg viðbrögð frá Bretum og Hollendingum eftir að Alþingi afgreiddi málið í lok ágúst.

Lögin í heild má finna hér.