Eins og greint var frá fyrr í dag var þjónustujöfnuður var jákvæður um 7,2 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi eftir að hafa verið neikvæður upp á um 1,7 milljarða á fyrsta ársfjórðungi. Þar munar mestu um mikla aukningu af tekjum af ferðamönnum.

Í umfjöllun IFS Greiningar um þetta kemur fram að miklar sveiflur séu í ferðaþjónustu en tekjur nái hámarki á þriðja ársfjórðungi. Þannig megi búast við góðum afgangi af þjónustujöfnuði á þeim ársfjórðungi sem nú stendur yfir.

Hins vegar kemur fram að til að greiða niður erlend lán þjóðarbúsins þurfa erlendar tekjur að koma á móti.

„Vaxtagreiðslur vegna erlendra lána, auk greiðsla af vaxtaberandi eignum erlendra aðila nema u.þ.b. 6 milljörðum á mánuði,“ segir í umfjöllun IFS.

„Einnig þarf að greiða af Icesave og má gera ráð fyrir greiðslur vegna Icesave séu frá 1 upp í 3 milljarða miðað við 100 til 70% endurheimtuhlutfall.“

Þá kemur fram að það sem af er ári hefur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum verið nægur 3 af 6 mánuðum til að standa undir erlendum greiðslum m.v. lægri mörk en aðeins tvisvar ef miðað er við efri mörk.

„Á fyrri helmingi ársins hefði afgangur af vöru og þjónustujöfnuði þurft að vera um 42 milljarðar miðað við lægri mörk en var hins vegar aðeins 38,5 milljarðar,“ segir í umfjöllun IFS.

Þó kemur fram að vaxandi afgangur þjónustuviðskipta og hærra álverð gefi vonir um að afgangur fari vaxandi.