IFS Greining spáir þokkalegum 4. fjórðungi hjá Marel en félagið birtir uppgjör sitt á morgun.

Samkvæmt spánni verður salan á fjórðungnum áþekk og á 3. fjórðungi. Þá spáir IFS lítillega slakari framlegð á 4. fjórðungi miðað við 3. ársfjórðung en þá var afkoma félagsins óvenjulega góð að sögn IFS.

„Við reiknum með að framlegðin geti sveiflast nokkuð á milli fjórðunga og erum því í hóflegri kantinum fyrir 4. ársfjórðungi,“ segir í spá IFS.

„Kostnaðaraðhaldsaðgerðir munu áfram hafa jákvæð áhrif á fjórðungnum líkt og sást á 3. ársfjórðungi. Við reiknum hins vegar með að sala á stórum kerfum sé enn langt undir meðaltali í eðlilegu árferði. Við spáum því að sala á stórum kerfum muni aukast á 1F10 og 2F10.“

Þá kemur fram að pantanastaða Marel stóð í stað á 3. ársfjórðungi frá fjórðungnum á undan sem þá hafði aukist um 17%. Nú er félagið komið hálfa leið að ná pantanastöðunni eins og hún var fyrir hrunið. Mestu munar að pantanir á stórum kerfum hafa komið hægar fram en talið var.

„Framleiðsluvísitölur sem mæla pantanastöðu hjá iðnaðarfyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkjunum benda til bata. Það ætti að skila sér í bættri afkomu á árinu 2010,“ segir í spá IFS.

Þá reiknar IFS með því að rekstur Food & Dairy hluta Stork verði seldur á næstunni sem og rekstur Carnitech. Báðar þessar eignir eru núna flokkaðar sem eignir utan kjarnastarfsemi og IFS spáir því ekki fyrir um afkomu þessa hluta starfseminnar.

„Við spáum því að Marel fái um 8 milljónir evra fyrir þessar eignir,“ segir í spá IFS.

„Áður höfðum við reiknað með 20-30 milljónum evra en erum nú svartsýnni í ljósi daprar afkomu á þessum einingum undanfarið. Líklegt er að félagið muni þurfa að afskrifa viðskiptavild vegna þessara eigna í ársuppgjöri 2009. Sú afskrift hefur ekki sjóðstreymisáhrif. Við tökum tillit til þessarar væntu sölu við útreikning á heildarvirði félagsins (EV).“