Lággjaldaflugfélagið British Airways (BA) greindi frá því í gær að félagið hefði sett sig í samband við nokkur fjárfestingarfélög varðandi hugsanlegt yfirtökutilboð í spænska flugfélagið Iberia. Samkvæmt frétt breska blaðsins Guardian hafa stjórnendur BA nú þegar átt í viðræðum við breska fjárfestingarfélagið Apax Partners, auk þess sem orðrómur sé á kreiki um að spænska flugfélagið Gestair verði einnig með í fyrirtækjahópnum.

Iberia tilkynnti um það í síðasta mánuði að bandaríska fjárfestingarfélagið TPG Capital hefði sýnt áhuga á að leggja fram yfirtökutilboð í flugfélagið upp á 3,4 milljarða evra, en TGP fer fyrir hóp nokkura fyrirtækja. Forsvarsmenn TGP hafa nú þegar óskað eftir því að fá frekari upplýsingar um fjárhagsstöðu Iberia.

British Airways er eigandi að 10% hlut í Iberia. Hins vegar sögðu stjórnendur BA í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í gær að félagið útilokaði að leggja fram sjálfstætt yfirtökutilboð í Iberia, sökum þess flugsamnings sem er í gildi á milli Spánar og Suður-Ameríku. Samkvæmt þeim samningi verður spænskt flugfélag sem flýgur til Suður-Ameríku að vera í meirihlutaeigu spænskra ríkisborgara.

Í kjölfar þess að Evrópusambandið (ESB) og Bandaríkin gerðu nýlega með sér samkomulag um aukið frjálsræði í flugi yfir Atlantsála (e. Open Skies Agreement) er fastlega búist við því að sameining flugfélaga þvert á landamæri aðildarríkja ESB muni færast í aukanna.