Í viðtali við Illuga Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er eins og gefur að skilja nokkuð fjallað um gengismálin, málefni krónunnar og gjaldeyrishöftin en þetta eru þau mál sem virðast hvað mest vefjast fyrir atvinnulífinu þessa dagana.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins er þess í stað birtur hér í heild sinni.

Aðspurður nánar um gjaldeyrishöftin segir Illugi að í landi gjaldeyrishafta ætti ríkisstjórnin að byrja og enda alla sína fundi á því að ræða það hvernig hægt væri að losa um gjaldeyrishöftin.

„Sá forsætisráðherra sem býr við svona aðstæður hefði átt að setja það í forgang að losa um þessi gjaldeyrishöft. Öll áhersla ríkisstjórnarinnar undanfarin ár hefði átt að vera á þetta mál,“ segir Illugi.

„Tjónið sem þjóðfélagið hefur orðið fyrir er gríðarlegt, bara uppsafnaður kostnaður af þessum geysilega gjaldeyrisvaraforða er kominn upp í um 85 milljarða króna. Það er engin smá fjárhæð, og er þá allt annað ótalið.

En heldurðu að gjaldeyrishöftin verði einhvern tímann afnumin á meðan við erum með krónuna?

„Já, ég held að það komi sá tími. En það þarf að ná fram þjóðarsátt um það, sem er auðvitað hægara sagt en gert,“ segir Illugi.

„Það kallar á gríðarlega fasta hagstjórn, m.a. að hér verði laun ekki hækkuð nema í takt við framleiðsluaukningu. Það þarf að vera þannig að þeir sem ætla sér að fjárfesta hérna sjái að hlutirnir séu í lagi. Ríkissjóður verður að vera í jafnvægi og gjaldeyristekjur þjóðarbúsins þurfa að fara jafnt og þétt vaxandi á næstu árum vegna aukinnar framleiðslu og að við skilum það miklum afgangi af viðskiptum við útlönd að men sjái fram á að við getum greitt skuldir okkar. Síðan hafa ýmsir verið að benda á leiðir til þess að stýra útflæðinu, en um það hafa komið fram mismunandi hugmyndir. En það er þó tæknileg hlið málsins. Aðal atriðið er að það náist um þetta sátt á meðal hagsmunaaðila í atvinnulífinu og ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu. Afnámið verður alltaf erfið aðgerð og það þarf að vera víðtækur stuðningur við það hvernig í það verður ráðist. Það hefur aldrei verið látið reyna á slíka sátt enda hefur ríkisstjórnin alltaf vísað þessu frá sér og yfir á Seðlabankann. Hugsaðu þér ef við hefðum eytt tímanum í það að ræða þetta frekar en breytingar á stjórnarskrá eða breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu – sem voru allar til hins verra.“

En gjaldmiðilinn sjálfur, sem er ónothæfur erlendis, hlýtur líka að spila stórt hlutverk hérna?

„Jú, vissulega er íslenska krónan illa nothæf eins og staðan er núna,“ segir Illugi.

„Ein af frumskyldum hverrar ríkisstjórnar er að tryggja að hér sé mynt sem er í lagi og nothæf í viðskiptum við önnur lönd. Og þá kemur spurningin sem þú ert væntanlega að leitast eftir, er möguleiki á að vera hér með krónu? Mitt svar við þessu er, já ég tel að við getum verið hér með íslenska krónu. Hún er vissulega ekki gallalaus og það mun kosta okkur, en þegar allt er vegið saman þá tel ég að krónan sé okkur til meira gagns en vanda.“

Þannig að í raun verðum við með krónu í einhverju formi hafta, skýtur blaðamaður inn í.

„Það verður ekki þannig að hún verði með sama hætti og hún var á árunum fyrir hrun, það er að segja fullkomlega frjálsar fjármagnshreyfingar á grundvelli verðbólgumarkmiðs. Það verður þannig að það verða einhvers konar höft á henni, en ekki þó þannig að þau hindri eðlilega fjárfestingu og viðskipti,“ segir Illugi.

„Einkum munu menn horfa til varúðartækja til að hindra óeðlilega mikið flæði til og frá landinu, einkum vegna vaxtamunaviðskipta. Menn tala mikið um að með því að taka upp annan gjaldmiðil þá muni fylgja því mikill agi. Nú höfum við séð afleiðingarnar af því innan evrusvæðisins hvernig það er að taka upp annan gjaldmiðil án þess að viðeigandi agi í ríkisfjármálum fylgi. Upptaka annarrar myntar kallar sem sagt ekki sjálfkrafa fram aukinn aga. Það að hafa okkar eigin gjaldmiðil, kallar á mikinn aga. Það er auðvitað auðveldara um að tala en í að komast. Meira að segja eftir hrun höfum við ekki sýnt þann aga sem nauðsynlegur er til að viðhalda góðri hagstjórn. Það er því ekki bara myntin sem skiptir máli, stjórnmálamennirnir og atvinnulífið þarf að standa sig, óháð því hvaða mynt er notuð.“

Þá segir Illugi að fyrra bragði að það sé rangt sem áður hafi komið fram um að hugsanlega kynni Evrópusambandið að aðstoða Íslendinga við að losa um gjaldeyrishöftin og að Íslendingar muni fá einhvers konar flýtimeðferð inn í myntsamstarf sambandsins, ERM II. Augljóslega muni Ísland ekki fara í ERM II með myntina í höftum. Höftin verði að afnema áður en landinu verður hleypt inn í það ferli og það er fráleitt að halda að ESB fjármagni afnám haftanna.

„Að halda slíku fram er einungis til þess fallið að blekkja þjóðina,“ segir Illugi að lokum.

Nánar er rætt við Illuga í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir Illugi sig einnig um andrúmsloftið á þinginu og hvað megi betur fara þar, efnahags- og gengismálin, stöðu Sjálfstæðisflokksins og formanns flokksins. Auk þess svarar hann spurningum um setu sína í stjórn Sjóðs 9 og pólitískar afleiðingar þess að hafa setið í stjórn sjóðsins.