Uppgreiðslur á lánum Íbúðalánasjóðs á þeim þremur árum sem hægt verður að nota séreignarsparnað til lækkunar á höfuðstól íbúðalána munu að öllum líkindum nema 30 milljörðum króna, að því er kemur fram í umsögn sjóðsins um frumvarp fjármálaráðherra. Segir þar að gert sé ráð fyrir því að uppgreiðslur verðtryggðra lána geti alls numið 63 milljörðum króna og miðað við markaðshlutdeild sjóðsins í verðtryggðum lánum gætu uppgreiðslurnar því numið um 30 milljörðum í tilviki hans. Tekið er fram í umsögninni að sjóðurinn hafi ekki svigrúm til að bæta það vaxtatap sem af þessu leiði.

Í umsögninni er sérstaklega farið í áhrif þriðja kafla frumvarpsins, en hann felur það í sér að ekki komi til greiðslu uppgreiðslugjalds sé séreignarsparnaður notaður til að greiða niður lán með slíkum skilmálum. Lántakendur geta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, valið sjálfir hvaða lán eigi að greiða inn á. Niðurfelling uppgreiðslugjalds sé aukahvati til uppgreiðslna á einmitt þeim lánum sem ella séu að hluta til varin gegn uppgreiðsluáhættu með uppgreiðslugjaldi.

Ætla megi að þeir sem hafi valið lán án heimildar til uppgreiðslu nema gegn gjaldi muni í flestum tilfellum verja viðbótarlífeyrissparnaði til lækkunar á þessum lánum. Vekur Íbúðasjóður athygli á því að þetta ákvæði muni leiða til umtalsverðs vaxtataps fyrir sjóðinn, þar sem hann hafi ekki heimildir til að greiða upp fjármögnun sína á móti uppgreiðslum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.