Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og ráðgjafi Steingríms J. Sigfússonar, er nú kominn til starfa í sjávarútvegsog landbúnaðarráðuneytinu eftir að hafa áður sinnt ráðgjafarstörfum í fjármálaráðuneytinu. Indriði fylgir því Steingrími J. Sigfússyni, nú sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra, á milli ráðuneyta.

Viðskiptablaðið fjallaði um málefni Indriða í lok janúar og aftur í byrjun febrúar sl. en þá var hann enn að störfum í ráðuneytinu þrátt fyrir að Steingrímur J. hefði fært sig um set. Indriði var sem kunnugt er kominn á eftirlaun þegar Steingrímur J., þá fjármálaráðherra, hafði samband við hann í febrúar 2009 og bað hann um að taka tímabundið að sér stöðu ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu.

Í kjölfarið tók Indriði að sér hin ýmsu störf fyrir ráðuneytið. Fyrst um sinn var hann ráðuneytisstjóri, síðan aðstoðarmaður ráðherra og loks var hann ráðinn sem ráðgjafi. Staða Indriða hefur aldrei verið auglýst, hvorki þegar hann var ráðinn ráðuneytisstjóri né ráðgjafi.

Nokkrum vikum eftir að Steingrímur J. færði sig úr fjármálaráðuneytinu um sl. áramót fylgdi Indriði honum yfir. Hann er þó sem fyrr ekki á lista yfir starfsmenn ráðuneytisins en þegar hringt er í ráðuneytið er hægt að fá samband við hann í gegnum síma.

Nánar er fjallað um störf Indriða H. Þorlákssonar hjá ráðuneytinu og aðkomu hans að frumvarpi um veiðigjald sem nú liggur fyrir Alþingi í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.