Sænska fjárfestingarfélagið Industrivärden tapaði 12,2 milljörðum sænskra króna á 4. ársfjórðungi, um 127,5 milljörðum króna. Árið var gert upp með 2,1 milljarðs SEK tapi. Í Hálffimm fréttum Kaupþings segir að hlutabréfasafn félagsins, sem var metið á 65,8 milljarða SEK í árslok, hafði lækkað niður í 59 milljarða. þann 12. febrúar, en stærstu eignarhlutir lágu í Sandvik (23% af heildarsafni), Handelsbanken (21%) og SSAB (17%). Hlutfall skulda heildareignum nam aðeins 18%. Lagt er til að arður fyrir árið 2007 verði 5 krónur á hvern hlut.

Markaðsverð undir innra virði Af sögulegum ástæðum hafa sænsk fjárfestingarfélög á borð við Industrivärden og Investor verið metin töluvert undir bókfærðu virði.  Félögin hafa á þessum tíma legið með mikið fé í sjóðum, en áður fyrr var skattalega hagkvæmt að vera með  mikið af handbæru fé. Bókfært virði hlutafjár Industrivärden stóð í 124 sænskum krónum á hlut í gær samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Í raun og veru eru fjárfestar að kaupa bréf í félaginu með fimmtungsafslætti því á sama tíma var markaðsgengi félagsins 99 krónur á hlut. Til samanburðar er markaðsgengi hlutafjár í Investor og Kinnevik um 30% lægra en innra virði þess um þessar mundir, samkvæmt því sem segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.