Ingimundur Friðriksson, fráfarandi seðlabankastjóri segir að með bréf Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra sem sent var bankastjórum Seðlabankans í síðustu viku, sé ómaklega vegið að starfsheiðri sínum og æru.

„Ég [...] hef alla tíð lagt fram um að sinna skyldum mínum, innanlands sem utan, af fagmennsku, ábyrgð og samviskusemi á grundvelli menntunar og reynslu sem ég hef aflað mér á áratugalöngum starfsferli í bankanum og í alþjóðlegu samstarfi,“ segir Ingimundur í bréfi sínu sem nú hefur verið birt opinberlega.

„Dylgjur um annað eru i huga mínum ósanngjarnar og órökstuddar. Mér finnst ómaklega vegið að starfsheiðri mínum og æru í bréfi yðar [...] og orðum sem þér hafið látið falla á opinberum vettvangi.“

Ingimundur tekur fram í bréfi sínu að hann hafi aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi né verið félagið í nokkurri stjórnmálahreyfingu.

„Ég get því með engu mótifallist ð að „pólitísk sjónarmið" hafi „vegið þungt" við skipun mína i bankastjórn Seðlabanka Íslands á sínum tíma eins og gefið er í skyn,“ segir Ingimundur í bréfi sínu.

„Ég tel skipun mína hafa byggst á faglegum sjónarmiðum og á þekkingu minni og reynslu, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Menntun mín er heldur ekki frábrugðin því sem algengt er meðal bankastjóra margra annarra seðlabanka sem einnig er vitnað til i bréfi yðar.“

Að lokum óskar Ingimundur eftir lausn úr embætti bankastjóra við Seðlabankann en afþakkar boð um að ganga við viðræðna um starfslokagreiðslur.

Sjá bréfið í heild sinni.