Samkvæmt frumvarpi sem Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, mælti fyrir á Alþingi í dag er gert ráð fyrir að eftirlit Geislavarna verði einfaldað og að geislun á fólk verði sem minnst. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að dregið verði úr reglubundnu tæknilegum eftirliti Geislavarna ríkisins, en þess í stað lögð ríkari ábyrg á notendur, virk gæðakerfi og mat á geislaálagi sjúklinga.

Meðal helstu breytinga má nefna að lögð til einföldun á framkvæmd eftirlits með innflutningi, uppsetningu og breytingum á geislatækjum sem gefa frá sér jónandi geislun. Frumvarpið gerir ráð fyrir að í stað þess að innflytjendur geislavirkra tækja þurfi að senda Geislavörnum ríkisins tilkynningu í hvert tæki sem slíkt tæki er flutt inn verði innflutningur tilkynntur stofnuninni árlega. Þá er í frumvarpinu lagt til að uppsetning geislatækja verði tilkynningaskyld en ekki leyfisskyld eins og nú er.

Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir að krafa um leyfi vegna breytingar á geislatæki verði felld niður. Einnig má nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að útflutningur geislavirkra efna verði háður leyfi Geislavarna ríkisins. Leyfi til útflutnings verður því aðeins veitt að stjórnvald í móttökulandinu staðfesti að móttakandi efnisins hafi leyfi til móttöku geislavirkra efna.

Í mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins á kostnaðaráhrifum frumvarpsins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum sé gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður Geislavarna ríkisins aukist um 6,1 milljón króna á ári og að stofnkostnaður verði 8 milljónir króna Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi frá og með 1. janúar 2009 og að allur kostnaður af framkvæmd þeirra rúmist innan fjárhagsramma heilbrigðisráðuneytis.

Fólk verði fyrir sem minnstri geislun

Guðlaugur Þór sagði í framsöguræðu sinni í dag að áherslubreytingin í starfsemi stofnunarinnar ætti að skila verulegum árangri í þeirri viðleitni að notkun geislunar á Íslandi verði sem árangursríkust og að geislun á fólk, almenning, starfsmenn og sjúklinga, sé jafnan sem minnst.