Innanflokksátök, flokkadrættir og óheilindi hafa leikið Framsóknarflokkinn grátt á undanförnum árum, sagði Birkir J. Jónsson, þingmaður og frambjóðandi til varaformennsku í flokknum. „Þessu viljum við breyta," sagði hann.

Birkir flytur nú framboðsræðu sína á flokksþingi framsóknarmanna í Valsheimilinu. Hann kvaðst vilja kalla fram í starfi og hugsjónum flokksins, stemmningu, heilindi og baráttuanda. Og síðast en ekki síst bjartsýni, sagði hann.

Birkir talaði mjög um nauðsyn breytinga í þjóðfélaginu sem og í stjórnmálaflokkum landsins. Hann sagði að sitt framboð byggði á þeirri kröfu. Hefja þyrfti hugsjónir Framsóknarflokksins upp til vegs og virðingar „með samvinnu og félagshyggju að leiðarljósi."