Írönsk stjórnvöld hafa áformað að leggja nýja olíuleiðslu sem myndi ná frá Kaspíahafi til Ómanflóa í því augnamiði að geta aukið framleiðslugetu sína gagnvart nágrannaþjóðum sínum í norðri, úr 150.000 tunnum á dag í eina milljón tunna. Frá þessu greindi olíumálaráðherra Írans, Gholam Hussein Nozari, og sagði að Íranar ættu nú þegar í olíuskiptum við Kasakstan, Túrkmenistan, Armeníu og Aserbaídsjan. Hins vegar myndi lagning slíkrar olíuleiðslu gera þessum landluktu ríkjum kleift að flytja olíu á heimsmarkað með mun minni tilkostnaði.

Ríki Mið-Asíu sem hafa aðgang að olíuauðlindum í Kaspíahafi - eða þau á Kákasus-svæðinu sem hafa samþykkt olíuskipti við Írana - munu flytja olíuna til Neka þaðan sem henni verður annað hvort dælt til olíuvinnslustöðvar í írönsku borginni Tabriz í norðvesturhluta landsins, eða til vinnslustöðvar í suðri rétt hjá Teheran.