*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 10. mars 2017 09:51

Ísland með næstmesta hagvöxtinn

Af þeim ríkjum sem birt hafa hagvaxtartölur var einungis Indland með meiri hagvöxt, eða 7,5%, á móti 7,2% hér á landi.

Ritstjórn

Árið 2016 var sjötta árið í röð þar sem hagvöxtur mældist hér á landi, eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær mældist hann 7,2% á síðasta ári. Næstmesti vöxturinn frá hruni mældist hins vegar árið 2013 þegar hann nam 4,4% en árið 2015 var hann 4,1%. 

Hagsjá Landsbankans fjallar um þjóðhagsreikningana, en þeir höfðu spáð því að hagvöxtur síðasta árs yrði 6,1%, sem var hæsta spáin fyrir árið meðal greiningaraðila.

Benda þeir á að Seðlabankinn hafi spáð í nóvember síðastliðnum um 5% hagvexti, en eftir endurskoðun nú í febrúar fór spá þeirra upp í 6%.

Hagsjáin fer yfir hvernig hagvöxturinn breyttist yfir árið, en á fyrstu tveimur fjórðungum ársins var hagvöxturinn á bilinu 3,5-4% en síðan var hann 9,6-11,3 á síðari tveimur ársfjórðungunum.

Loks vísar hagsjáin í að af þeim löndum sem hafa birt hagvaxtartölur fyrir árið 2016 er Ísland í öðru sæti á eftir Indlandi, en þar var mældur hagvöxtur 7,5%.