*

fimmtudagur, 21. október 2021
Innlent 29. desember 2018 14:02

Íslandi leið illa

Tómas Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcao, segir að útséð sé að ekki ráði öll fyrirtæki við launakröfur nýrrar verkalýðsforystu.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Tómas Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcoa var formaður Viðskiptaráðs, á árunum 2009 til 2012. Í síðustu ræðu sinni sem formaður á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs varaði hann við þeirri neikvæðu umræðu sem ríkti um íslenskt viðskiptalíf. „Þá voru allir skaddaðir og mengaðir, annað hvort fyrirtækin farin á hausinn, eða fólk sjálft stóð illa og það leið öllum einfaldlega illa, ég held að Íslandi hafi bara liðið illa. Ég datt inn í þetta, sennilega af því að ég hef alla tíð unnið fyrir utan þessa íslensku hringiðu.Við virkilega þurftum að koma fram gagnvart stjórnvöldum og sannfæra stjórnvöld um að það væri ekki allt sem hefði gerst í íslensku atvinnulífi verið vitlaust og rangt. Það var svolítið í tísku að tala allt niður.“

Síðan þá hafi bæði horft til betri vegar í umræðunni og efnahagshorfunum. „Að mörgu leyti hefur gengið frábærlega síðustu tíu árin. Þjóðarbúið er í allt annarri stöðu. Ég held að ef allt fellur með okkur og við högum okkur rétt höfum við öll vopn í okkar hendi til að halda því áfram. En að auðvitað vilja allir fá sinn skerf af þessari hagsveiflu.“ Hann segir nýja forustu verkalýðshreyfingarinnar tala fyrir launahækkunum á grunni þess að sumum fyrirtækjum gangi vel. Útséð er að ekki ráði öll fyrirtæki við launakröfurnar.

„Fyrir minni fyrirtæki er launakostnaður orðinn mjög hár. Ég skil vel að minni og meðalstór fyrirtæki séu uggandi yfir tali um verulegar launahækkanir. Ég vona að við náum kjarabótum öðruvísi, með skattalækkunum eða öðru slíku þannig að við getum haldið áfram styrkja okkur. Ferðaþjónustan virðist byggja á frekari veikum grunni eins og við sjáum hvernig Wow air hefur verið að veltast um síðustu vikur og mánuði. Til þess að mörg af þessum minni fyrirtækjum spjari sig þarf launakostnaðurinn að vera skynsamlegur. Það ætti frekar að horfa á kaupmáttinn og þar þurfum við að ná niður vöxtum og sköttum. Ég er að vona okkur beri gæfa til að ná lendingu þannig í stað þess að fara í miklar launahækkanir sem enda með hærri verðbólgu og falli gengis.“

Nánar er rætt við Tómas Má í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.