Hluthafar Íslenskra verðbréfa munu eignast um 26,5% í MP banka ef yfirtaka bankans gengur eftir. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. Íslandsbanki á í dag 27,51% í ÍV og mun því eignast um 7,3% hlut í MP banka við yfirtökuna. ÍV er verðlagt á um 2,4 milljarða í viðskiptunum en MP banki greiðir fyrir hlutinn með nýju hlutafé í MP banka.

Í nóvember á síðasta ári var samþykkt tveggja milljarða heimild til hlutafjáraukningar í bankanum. Tveir milljarðar af nýju hlutafé eru um 26,6% af heildarhlutafé bankans eftir aukningu. Kaupin á ÍV með útgáfu nýs hlutafjár ættu því að rúmast innan þessara heimildar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa þónokkrir aðilar lýst yfir áhuga sínum á að kaupa hlut Íslandsbanka í ÍV á undanförnum mánuðum án þess að bankinn hafi selt hlutinn. Verðmat bankans á ÍV hefur verið sagt langt frá væntingum mögulegra kaupenda eða um 4 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .