*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 23. október 2020 18:02

Íslandsbanki hækkar vexti

Í næstu viku mun Íslandsbanki hækka vexti á húsnæðislánum. Ástæðan er sögð vera hærri fjármagnskostnaður.

Alexander Giess
Fastir óverðtryggðir vextir húsnæðislána til 60 mánaða hækka úr 4,05% í 4,40%.
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki hyggst hækka vexti á húsnæðislánum í næstu viku. Þetta staðfestir bankinn. Hækkunin nemur allt að 0,35 prósentustigum. Íslandsbanki segir að ástæðuna megi rekja til hærri fjármögnunarkostnaðar en síðasta vaxtalækkun bankans átti sér stað í vor. Vaxtahækkunin nær bæði til verðtryggðra og óverðtryggðra lána.

Sjá einnig: Ekki séð ástæðu til mikillar íhlutunar

Í svari Íslandsbanka er bent á hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Í fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands kemur fram að nefndin hefur ekki séð ástæðu til umfangsmikillar magnbundinnar íhlutunar, þrátt fyrir hækkandi langtímaávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði.

Eftir vaxtahækkun Íslandsbanka er bankinn enn með lægstu vextina í þeim flokkum, samkvæmt vef Aurbjargar.

Óverðtryggð lán munu koma til með að hækka meira en þau verðtryggðu. Íslandsbanki vísar því á bug að ástæða vaxtabreytingarinnar sé sú að auka spurn eftir verðtryggðum lánum. 

Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa lækkað um tvö prósentustig það sem af er ári og eru nú eitt prósent.

Eftirfarandi lán munu bera hærri vexti frá og með næstu viku:

Verðtryggð húsnæðislán með vaxtaendurskoðun hækka úr 1,95% í 2,05%

Verðtryggð viðbótarhúsnæðislán með vaxtaendurskoðun hækka úr 3,05% í 3,15%

Fastir óverðtryggðir vextir húsnæðislána til 36 mánaða hækka úr 3,95% í 4,10%

Fastir óverðtryggðir vextir viðbótarhúsnæðislána til 36 mánaða hækka úr 5,05% í 5,2%

Fastir óverðtryggðir vextir húsnæðislána til 60 mánaða hækka úr 4,05% í 4,40%

Fastir óverðtryggðir vextir viðbótarhúsnæðislána til 60 mánaða hækka úr 5,15% í 5,5%