*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 9. september 2021 07:02

Íslandsbanki í tækniútrás

Bankinn hyggst opna tækniþróunarsetur í Póllandi til að mæta breytingum í umhverfinu og þróa tæknilausnir til framtíðar.

Andrea Sigurðardóttir
Riaan Dreyer er framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Íslandsbanka.
Aðsend mynd

Íslandsbanki ætlar að setja á laggirnar tækniþróunarsetur í Póllandi, til að mæta hröðum breytingum í tækniumhverfinu.

Riaan Dreyer, framkvæmdastjóri upplýsingatækni hjá Íslandsbanka, segir að með þróunarsetrinu færist austur-evrópskir forritarar sem bankinn hefur starfað með undanfarin ár nær bankanum, menningu hans, gildum og framtíðarsýn.

„Við höfum verið að móta okkur framtíðarstefnu um það hvernig við getum mætt þessum hröðu breytingum sem eru að eiga sér stað í umhverfinu, þá bæði með tilliti til afkastagetu okkar og þeirrar þekkingar sem við búum yfir. Úr varð að við ákváðum að setja á laggirnar tækniþróunarsetur í Póllandi, þar sem við semjum beint við forritara þar í landi, í stað þess að semja við þá í gegnum þriðja aðila, eins og við höfum verið að gera undanfarin sex ár. Þróunarsetrið mun gera okkur kleift að halda áfram að þróa þær lausnir sem við munum þurfa í framtíðinni með hagkvæmum hætti, auk þess sem það að semja beint við forritarana færir þá nær menningu okkar, gildum og framtíðarsýn," segir Riaan og bætir við að fjártæknisenan í Póllandi sé mjög lifandi. Til marks um það hafi margir stærstu bankar Norðurlandanna komið sér upp sambærilegum þróunarsetrum þar í landi.

Hann segir bankann upphaflega hafa byrjað að vinna með austur-evrópskum forriturum vegna þess verkefnaálags sem fylgdi þeirri vinnu að skipta út grunnkerfi bankans.

„Við áttuðum okkur þó fljótt á því að þarna væri að finna mannauð sem býr yfir sértækri hæfni og þekkingu sem er vandfundnari hér á landi. Austur-evrópsku forritararnir hafa þannig reynst mjög verðmæt auðlind til viðbótar við þann mannauð og þá þekkingu sem er til staðar hér á Íslandi."

Nánar er rætt við Riaan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér